Stofnandi Eylífar, Ólöf Rún Tryggvadóttir, fékk á dögunum viðurkenningu Íslenska Sjávarklasana fyrir að nýta fjölbreyttar íslenskar afurðir í fæðubótarefnin frá Eylíf. Það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu fyrir vörumerkið Eylíf og stofnanda þess.
Nánar er hægt að lesa um viðurkenninguna hér:
“Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis, -orku og loftslagsráðherra veitti í dag, þriðjudaginn 21. mars, fjórar viðurkenningar til fólks eða fyrirtækja sem eflt hefur samstarf og nýsköpun innan Sjávarklasans. Viðurkenningarnar voru veittar í Húsi sjávarklasans.
Íslenski sjávarklasinn veitir á hverju ári sérstakar viðurkenningar til einstaklinga eða fyrirtækja sem stuðlað hafa með einhverju móti að samstarfi og nýsköpun í bláa hagkerfinu eða eflt hringrásarhagkerfið. Að þessu sinni hljóta fjórir aðilar þessa viðurkenningu.
Í tilkynningu kemur fram að það sem einkenni þau sem hljóta viðurkenningarnar að þessu sinni er að þau hafa öll stuðlað að eflingu nýsköpunar og samstarfs, opnað fleiri möguleika fyrir nýsköpunarfyrirtæki eða styrkt samkeppnisstöðu þeirra á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
Í fyrsta lagi hlýtur Ólöf Tryggvadóttir frumkvöðull viðurkenningu fyrir að nýta fjölbreytt íslensk hráefni í vörur sínar hjá frumkvöðlafyrirtækinu Eylíf. Þannig hefur Ólöf búið til tækifæri fyrir ýmsa aðra framleiðendur á einstökum hráefnum úr náttúruauðlindum Íslands. Þá hefur Ólöf verið afar áhugasöm um að deila reynslu sinni og þekkingu til annarra frumkvöðla í klasanum og þannig hefur hún verið góð fyrirmynd um samstarf og samvinnu í Sjávarklasanum.”
Fréttatilkynninguna er hægt að lesar inni á Vísir.is

