Einn af orsakavöldum bólgna í líkamanum eru ónæmisviðbrögð en þau gerast við snögga árás á líkamann eins og beinbrot, vírusar, bakteríur og svo framvegis, en bólga skv. vísindavefnum er staðbundið ósérhæft varnarsvar líkamans. Þegar þessar snöggu bólgur koma fram meðhöndlum við þær all snarlega og yfirleitt ganga þær yfir á einhverjum tíma.
Þegar bólgurnar verða krónískar (langvinnar) lýsir það sér í stöðugum bólgum en einnig liðverkjum. Vísbendingar um slíkar krónískar bólgur getur verið orkuleysi, þreyta, svefnleysi, sjúkdómar í meltingarveginum og mikil streita.
Við getum gert ýmislegt til að fyrirbyggja og draga úr krónískum bólgum og kemur næring, hreyfing og góður svefn þar sterkt inn. Með því að næra okkur með heilnæmum mat og góðum vítamínum, hreyfa okkur reglulega og gæta þess að fá nægan svefn getum við unnið okkur í haginn og fyrirbyggt bólgur í líkamanum. Mikilvægt er að skoða innihaldslýsingar á matvælum og halda sig við náttúruleg og hrein hráefni sem ekki eru erfðabreytt. Heilsumarkþjálfar sem vinna með skjólstæðingum sínum geta t.d. hjálpað hverjum og einum í að finna hvaða matarræði hentar og hvaða vítamín best er að taka.